


#30 Eyþór Mar Halldórsson - Yfirkokkur
Gestur þáttarins að þessu sinni er Eyþór Mar Halldórsson matreiðslumeistari. Eyþór er frá Húsavík eins og svo margir aðrir góðir kokkar. Hann á og rekur þrjá veitingastaði í Reykjavík sem allir ganga mjög vel og hefur komið að opnun fjölda annarra. Við ræðum þetta auðvitað, ferilinn hingað til og hvernig hann komst þangað sem hann er kominn í dag. Eins og endranær er farið út um víðan völl og við meira að segja tölum um jafnréttismál í veitingabransanum í dag. Mjög skemmtilegt spjall, enda Eyþór mjög skemmtilegur náungi.

#29 Fanney Dóra og Davíð Örn - Sleggjudómar

#28 Árni Ólafur Jónsson - Hinn blómlegi kokkur
Gestur minn í þessum þætti er Árni Ólafur Jónsson, matreiðslumaður sem á og rekur veitingastaðinn Matr í Norræna húsinu. Árni hefur komið víða við og kom einhvern veginn dáldið bakdyramegin inn í veitingabransann. Hann lærði kokkinn í New York og vann þar áður en hann flutti til Íslands til að taka þátt í því að búa til hina frábæru matarþætti Hið blómlega bú sem sýndir voru á Stöð 2. Við ræddum þættina, veitingabransann á Íslandi og í Bandaríkjunum, útbruna og fleira hressandi. Gífurlega gott spjall.

#27 Alba Hough - Vínkona mín
Það hefur verið kallað eftir umfjöllun um vín í Kokkaflakki í eyrun og ef það er eitthvað sem kokkaflakkarinn er þá er það maður fólksins sem hlustar og tekur öllum ábendingum fagnandi. Það er einmitt þess vegna sem ég fékk til mín góða vinkonu mína, hana Ölbu Hough sem er vínþjónn og vínfræðingur. Við ræðum allskonar sem tengist víni og veitingaheiminum bæði vítt og breytt eins og við er að búast. Það koma þó upp óvæntir hlutir eins og veðurbreytingar af mannavöldum, rasismi ásamt málum sem tengjast víni á hefðbundnari hátt eins t.d. hvernig í ósköpunum vínþjónakeppnir fara fram. Það var mjög gaman hjá okkur.

#26 Jón Haukur Baldvinsson - Spítalamatur
Eftir stutt veikindafrí snýr Kokkaflakkarinn aftur með glænýjan þátt inspireraðan af þessu fríi, því eftir nokkurra daga spítalalegu í kjölfar aðgerðar fór ég að spögulera í því hverskonar svakalegt batterí spítalaeldhús hljóti að vera. Og þá er auðvitað ekki nema eitt að gera og það er að hafa samband við manninn sem stýrir eldhúsinu á Landsspítalanum Háskólasjúkrahúsi og ræða það aðeins við hann. Sá heitir Jón Haukur Baldvinsson. Hann tók við stjórnartauminum í spítalaeldhúsinu á síðasta ári og hefur mikinn metnað fyrir hönd þess, metnað sem ég fékk að upplifa á eigin skinni að er farinn að skila sér. Við ræðum það, bakgrunn hans í veitingabransanum, en hann er einn af stofnendum Jamies Italian á Hótel Borg og ýmislegt fleira.
Mjög fróðlegt og áhugavert spjall.

#25 Helgi í Góu - Nammigrís

#24 Alfreð Fannar Björnsson - BBQ kóngurinn
Það er febrúar og hvaða matur er fólki þá efstur í huga? Jú mikið rétt, grillmatur.
Gestur þáttarins heitir Alfreð Fannar Björnsson og er líka þekktur sem BBQ kóngurinn. Hann er miklll dellukarl og eftir að hafa lagt bíladelluna og veiðidelluna á hilluna hellti hann sér út í grilldelluna af fullum þunga, þó hann hafi ekki vitað neitt um mat þegar hann byrjaði. Hann fór að grilla á samfélagsmiðlunum og í kjölfarið hafði Stöð 2 samband og þar stýrir hann nú grillþáttum. Við ræddum þetta og ýmislegt fleira yfir bjór. Mjög skemmtilegt!

#23 María Hjálmtýsdóttir - Kynjaður matur
Þau sem hafa hlustað á Kokkaflakkið hafa kannski tekið eftir því að ég er búinn að vera að spá í hvernig standi á því að sumur matur er frekar hugsaður handa körlum og annar konum. Til þess að hjálpa mér til þess að komast til botns í þessu fékk ég í heimsókn til mín á Vínstúkuna, Maríu Hjálmtýsdóttur kynjafræðikennara. Við María höfum verið saman í matarklúbbi og hún kemur alltaf með Mole. Við tölum um það, um furðulega hluti sem fólk hendir og svo þessa kynjavinkla í mat og drykk. Mjög áhugavert spjall við skemmtilega konu.

#22 Dóra Svavarsdóttir - Baráttukona
Í þessum þætti tölum við um matarsóun, umhverfisvernd, sótsporið sem máltíðin okkar skilur eftir sig og hvað við getum gert til að spyrna gegn þessum vandamálum. Til þess að ræða þetta fékk ég til mín Dóru Svavarsdóttur matreiðslumann sem er mikil baráttukona gegn matarsóun og er í forsvari fyrir Reykjavíkurdeild Slow food. Við förum rækilega yfir þetta allt saman í frábærlega skemmtilegu spjalli þó málefnið sé alvarlegt.

#21 Hlal Jarah - Kóngurinn af Mandi
Þessi þáttur er á ensku því viðmælandi minn að þessu sinni er Hlal Jarah sem er frá Sýrlandi. Við þekkjum hann flest sem Hlal á Mandi. Hann rekur nokkra veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu og er með tvo í viðbót á teikniborðinu. Annar þeirra er fyrsti vatnspípustaðurinn í Reykjavík og þar hittumst við og áttum þar gott spjall. Við töluðum um kebab, sýrlenskan mat, fjölskyldu og smá um pólitík. En samt mest um mat.

#20 Jakob Jakobsson - Jómfrú

#19 Guðrún Sóley - Veganklappstýra

#18 Ragga Nagli - Að borða í núvitund
Hér er fyrsti þátturinn á nýju ári og í honum kveður við dáldið annan tón en áður, þó umræðuefnið sé auðvitað ennþá matartengt. Gestur þáttarins í þetta sinn er Ragnhildur Þórðardóttir sem er betur þekkt sem Ragga Nagli. Hún heldur úti hlaðvarpinu Heilsuvarpið og heimasíðunni ragganagli.com þar sem hún fjallar um allskonar heilsutengd málefni. Þetta var geysilega gott spjall þar sem við fórum yfir hvað það er að borða í núvitund, hvað það getur gert fólki að skammast sín sífellt fyrir hvað það borðar og hvað það er mikilvægt að borða það sem þér finnst bragðgott. Við fórum líka yfir það hvernig best er að ná árangri ef meiningin er að taka til í mataræðinu sem algengt er um áramót.

#17 Kristinn Guðmundsson - Soð

#16 Ragnar Freyr - Læknirinn í eldhúsinu
Jólagestur þessa þáttar er enginn annar en Læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson. Hann var á tímabili vinsælasti matarbloggari landsins, það vinsæll að hann var beðinn um að koma blogginu fyrir í bók til útgáfu. Síðan hefur hann gert nokkrar bækur og einnig sjónvarpsseríur. Við ræddum þetta auðvitað allt saman sem og Covid 19, því Ragnar var settur sem yfirlæknir Covid-göngudeildar Landsspítalans sem komið var upp á mettíma. Við töluðum líka um mat, jólamat og sænskan mat. Mjög skemmtilegt spjall við mjög skemmtilegan mann.

#15 Jólasleggjudómar með Gunnari Karli og Fanneyju Dóru
Það eru að koma jól og þá dugir ekkert annað en að henda í jólaþátt. Í þessum þætti fæ ég til liðs við mig tvo matreiðslumenn og við förum yfir jólahefðir í mat hjá þeim og þjóðinni allri. Við förum líka rækilega yfir hvaða jólamatur er ofmetinn og hvaða jólamatur er vanmetinn án nokkurrar ritskoðunnar og þar falla nokkrar sleggjur. Ef grant er hlustað má líka finna allskonar pro tip sem ættu að hjálpa fólki við matargerð á jólum, enda eru hér á ferð tveir af færustu matreiðslumönnum Íslands sem eru; Gunnar Karl Gíslason, yfirkokkur á DILL restaurant sem eins og fólk veit er eini staðurinn á Íslandi sem hefur nokkurntíma hlotið Michelin stjörnu og Fanney Dóra Sigurjónsdóttir sem hefur lengi verið meðlimur í kokkalandsliði Íslands og var fyrirliði þess þegar það varð í þriðja sæti á Ólympíuleikunum síðast. Sjúklega skemmtilegt spjall um allt og ekkert, en fyrst og fremst mat og jólin.

#14 Hlédís Sveinsdóttir - Hamhleypa

#13 Sigurður Laufdal - Bocuse d´Or
Í þætti vikunnar hitti ég kokkinn Sigurð Laufdal. Hann er í fullri vinnu við að undirbúa sig fyrir virtustu einstaklingskeppni í matreiðslu í heiminum, Bocuse d´Or í Lyon. Hann var í fjórða sæti í undankeppni Evrópu, vann þar verðlaun fyrir besta fiskréttinn og ætlar sér að vinna aðalkeppnina í júní. Hann hefur farið áður í þessa keppni og varð þá í 5. sæti en mætir nú aftur, reynslunni ríkari og mun betur undirbúinn. Við tölum um ferilinn og aðdragandann að þessu öllu saman og hversu stór og merkileg þessi keppni er. Mjög áhugavert spjall um hvernig fólk kemst eins nálægt fullkomnun í matreiðslu og mögulegt er.

#12 Björn Steinar Jónsson - Saltverk
Gestur þessa þáttar er Björn Steinar Jónsson. Hann er verkfræðingur sem bjó lengi í Danmörku en það er ekki þess vegna sem ég ákvað að biðja hann um að koma í viðtal. Nei, það er vegna þess að hann er mjög merkilegur matarfrumkvöðull á Íslandi. Hann framleiðir hágæða salt á sjálfbæran hátt vestur á fjörðum. Hann er líka einn eiganda veitingahússins Skál! á Hlemmi og rekur heildsölu sem flytur inn náttúruvín. Við ræðum þetta allt saman en þó fyrst og fremst hið merkilega fyrirbæri salt, sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Við setjum það meira að segja á göturnar!
Mjög áhugavert spjall.
Kokkaflakk í eyrun er framleitt af Hljóðkirkjunni og er í boði Bríó frá Borg Brugghúsi og Vínstúkunnar tíu sopa.