Kokkaflakk í eyrun
#19 Guðrún Sóley - Veganklappstýra

#19 Guðrún Sóley - Veganklappstýra

January 12, 2021
Það eru margir sem prófa að tileinka sér vegan-lífsstíl í janúar í tilefni af Veganúar sem viðmælandi þáttarins segir að sé hátíð fyrir veganista.  Kokkaflakkarinn er áhugasamur um alla anga matarhegðunar fólks og fékk því eina helstu klappstýru veganista í spjall en það er engin önnur en hún Guðrún Sóley Gestsdóttir sem um ræðir. Við ræddum veganmat og lífsstílinn, fordómana sem þau sem kjósa að vera vegan verða fyrir og hversu stressandi það er að skrifa matreiðslubók, sem hún jú hefur reynslu af. Guðrún Sóley er þekkt andlit sem hefur verið viðloðandi fjölmiðla um árabil, bæði í útvarpi og sjónvarpi, þar sem hún stýrir meðal annars menningarumfjöllun á RÚV. Mjög skemmtilegt spjall. 
 
Gleðilegan veganúar!
#18 Ragga Nagli - Að borða í núvitund

#18 Ragga Nagli - Að borða í núvitund

January 5, 2021

Hér er fyrsti þátturinn á nýju ári og í honum kveður við dáldið annan tón en áður, þó umræðuefnið sé auðvitað ennþá matartengt. Gestur þáttarins í þetta sinn er Ragnhildur Þórðardóttir sem er betur þekkt sem Ragga Nagli. Hún heldur úti hlaðvarpinu Heilsuvarpið og heimasíðunni ragganagli.com þar sem hún fjallar um allskonar heilsutengd málefni. Þetta var geysilega gott spjall þar sem við fórum yfir hvað það er að borða í núvitund, hvað það getur gert fólki að skammast sín sífellt fyrir hvað það borðar og hvað það er mikilvægt að borða það sem þér finnst bragðgott. Við fórum líka yfir það hvernig best er að ná árangri ef meiningin er að taka til í mataræðinu sem algengt er um áramót. 

#17 Kristinn Guðmundsson - Soð

#17 Kristinn Guðmundsson - Soð

December 28, 2020
Gestur minn í þessum þætti er myndlistarmaðurinn Kristinn Guðmundsson. Kristinn býr í Brussel en með nútímatækni tókst okkur að spjalla saman yfir hafið og maður lifandi hvað það var skemmtilegt spjall. Kristinn hefur í nokkur ár verið að gera þætti sem heita Soð sem slógu fyrst í gegn á Youtube sem rötuðu svo þaðan í Sjónvarp Símans og nú er hann kominn í hið virðulega Ríkissjónvarp, sem sumir virðulegir áhorfendur skilja misvel. Kristinn kemur til dyranna eins og hann er klæddur, bæði í þessu spjalli og sem og í sínum þáttum. Við spjöllum um internet-hatur, myndlist og lífið almennt. Frábærlega skemmtilegt! 
#16 Ragnar Freyr - Læknirinn í eldhúsinu

#16 Ragnar Freyr - Læknirinn í eldhúsinu

December 22, 2020

Jólagestur þessa þáttar er enginn annar en Læknirinn í eldhúsinu, Ragnar Freyr Ingvarsson. Hann var á tímabili vinsælasti matarbloggari landsins, það vinsæll að hann var beðinn um að koma blogginu fyrir í bók til útgáfu. Síðan hefur hann gert nokkrar bækur og einnig sjónvarpsseríur. Við ræddum þetta auðvitað allt saman sem og Covid 19, því Ragnar var settur sem yfirlæknir Covid-göngudeildar Landsspítalans sem komið var upp á mettíma. Við töluðum líka um mat, jólamat og sænskan mat. Mjög skemmtilegt spjall við mjög skemmtilegan mann. 

#15 Jólasleggjudómar með Gunnari Karli og Fanneyju Dóru

#15 Jólasleggjudómar með Gunnari Karli og Fanneyju Dóru

December 15, 2020

Það eru að koma jól og þá dugir ekkert annað en að henda í jólaþátt. Í þessum þætti fæ ég til liðs við mig tvo matreiðslumenn og við förum yfir jólahefðir í mat hjá þeim og þjóðinni allri. Við förum líka rækilega yfir hvaða jólamatur er ofmetinn og hvaða jólamatur er vanmetinn án nokkurrar ritskoðunnar og þar falla nokkrar sleggjur. Ef grant er hlustað má líka finna allskonar pro tip sem ættu að hjálpa fólki við matargerð á jólum, enda eru hér á ferð tveir af færustu matreiðslumönnum Íslands sem eru; Gunnar Karl Gíslason, yfirkokkur á DILL restaurant sem eins og fólk veit er eini staðurinn á Íslandi sem hefur nokkurntíma hlotið Michelin stjörnu og Fanney Dóra Sigurjónsdóttir sem hefur lengi verið meðlimur í kokkalandsliði Íslands og var fyrirliði þess þegar það varð í þriðja sæti á Ólympíuleikunum síðast. Sjúklega skemmtilegt spjall um allt og ekkert, en fyrst og fremst mat og jólin. 

 
Kokkaflakk í eyrun er í boði:
 
 
 
Kokkaflakk er framleitt af Hljóðkirkjunni: https://www.facebook.com/hljodkirkjan
 
[ATH Myndin er samsett]
#14 Hlédís Sveinsdóttir - Hamhleypa

#14 Hlédís Sveinsdóttir - Hamhleypa

December 8, 2020
Gestur þessa þáttar er Hlédís Sveinsdóttir. Hlédís er sannkölluð hamhleypa til verka sem hefur látið allskonar hluti gerast af því að henni hefur fundist þörf á því.
 
Hún stofnaði vefsíðu sem gerði fólki kleift að ættleiða kindur og lömb, var ein af upphafsfólki og mikil talskona Beint frá býli og rekjanleika landbúnaðarafurða. Hún er líka önnur tveggja kjarnorkukvenna sem hafa staðið að matarmarkaði Búrsins, fyrst á bílaplaninum við Nóatún og síðustu ár í Hörpunni tvisvar sinnum á ári. Með því hefur hún stutt ærlega við bakið á frumkvöðlastarfi í landbúnaði og matvælaframleiðslu með því að gefa fólki pláss til að selja og þróa nýjar vörur. 
 
Um þessar mundir vinnur hún við sjónvarpsþáttagerð auk þess að vera í nefnd sem vinnur að því að búa til landbúnaðarstefnu Íslands, sem er jú grunnurinn að allri matvælaframleiðslu á landinu. Allt þetta gerir hún meðfram því að vera einstæð móðir á Akranesi, ásamt því að hafa í mörg ár staðið í erfiðum málarekstri vegna læknamistaka við fæðingu dóttur sinnar. 
 
Mögnuð kona og frábært spjall!
#13 Sigurður Laufdal - Bocuse d´Or

#13 Sigurður Laufdal - Bocuse d´Or

December 1, 2020

Í þætti vikunnar hitti ég kokkinn Sigurð Laufdal. Hann er í fullri vinnu við að undirbúa sig fyrir virtustu einstaklingskeppni í matreiðslu í heiminum, Bocuse d´Or í Lyon. Hann var í fjórða sæti í undankeppni Evrópu, vann þar verðlaun fyrir besta fiskréttinn og ætlar sér að vinna aðalkeppnina í júní. Hann hefur farið áður í þessa keppni og varð þá í 5. sæti en mætir nú aftur, reynslunni ríkari og mun betur undirbúinn. Við tölum um ferilinn og aðdragandann að þessu öllu saman og hversu stór og merkileg þessi keppni er. Mjög áhugavert spjall um hvernig fólk kemst eins nálægt fullkomnun í matreiðslu og mögulegt er.

#12 Björn Steinar Jónsson - Saltverk

#12 Björn Steinar Jónsson - Saltverk

November 24, 2020

Gestur þessa þáttar er Björn Steinar Jónsson. Hann er verkfræðingur sem bjó lengi í Danmörku en það er ekki þess vegna sem ég ákvað að biðja hann um að koma í viðtal. Nei, það er vegna þess að hann er mjög merkilegur matarfrumkvöðull á Íslandi. Hann framleiðir hágæða salt á sjálfbæran hátt vestur á fjörðum. Hann er líka einn eiganda veitingahússins Skál! á Hlemmi og rekur heildsölu sem flytur inn náttúruvín. Við ræðum þetta allt saman en þó fyrst og fremst hið merkilega fyrirbæri salt, sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Við setjum það meira að segja á göturnar! 

Mjög áhugavert spjall.

Kokkaflakk í eyrun er framleitt af Hljóðkirkjunni og er í boði Bríó frá Borg Brugghúsi og Vínstúkunnar tíu sopa.

#11 Ragnheiður Maísól - Súrdeigið

#11 Ragnheiður Maísól - Súrdeigið

November 17, 2020
Í þessum fyrsta þætti í seríu tvö af Kokkflakki í eyrun er kafað hyldjúpt í undraheim súrdeigsbaksturs og nördaskapsins í kringum hann. Það hefur varla farið framhjá mataráhugafólki hvaða áhrif samkomubann og fjarlægðartakmarkanir hafa haft á súrdeigsáhuga fólks um allan heim. Þegar áhuginn breiddist út hraðar en veiran var það Ragnheiður Maísól Sturludóttir sem bar hitann og þungann af því að hjálpa fólki með sín fyrstu skref hér á landi og hún er gestur þáttarins að þessu sinni. 
 
Ragnheiður Maísól er listakona, menntaður trúður og ein helsta áhugakona um súrdeigsbakstur hér á landi. Hún er stofnandi Facebook-samfélagsins Súrdeigið sem rauk úr 300 meðlimum í 12 þúsund í samkomubanninu. Hún deilir einnig góðum ráðum á Instagram-síðunni @nybakad.surdeig. Við fórum bæði vítt og breitt yfir málin og köfuðum vel í nördaskap sem tengist súrdeigsbakstri, svo sem mismunandi hitastig á hveiti, hvort hveiti sé betra nýmalað heima við og hvort viðbætt ger sé dauðasök. Sjúklega áhugavert spjall!
 
#10 Sleggjudómar - Endalok seríu

#10 Sleggjudómar - Endalok seríu

November 10, 2020

Þá er komið að honum, þættinum sem enginn er búinn að vera að bíða eftir, lokaþætti fyrstu seríu Kokkaflakks í eyrun!

Í þennan þátt fékk ég til mín tvö þeirra sem ég heimsótti í sjónvarpsþáttunum Kokkaflakk, þau Dröfn Ösp Snorradóttir Rozas og Davíð Örn Hákonarson. Mig langaði að vita hvað á daga þeirra hefði drifið síðan við heimsóttum þau annars vegar í París og hins vegar í Los Angeles, svo við fórum aðeins yfir það. En aðallega ræddum við þó hvaða matur er ofmetinn, hvaða matur er vanmetinn og fórum yfir persónulega topp fimm lista yfir besta sælgætið og skyndibitann meðal annars. Stútfullur þáttur af sleggjudómum og hot takes.

Að lokum er vert að taka fram að þó svo að fyrstu seríu sé að ljúka með þessum þætti þá er alger óþarfi að verða leið yfir því, önnur sería hefst strax í næstu viku eins og ekkert hafi í skorist.

#9 Siggi Hall - Legend

#9 Siggi Hall - Legend

November 3, 2020

Gestur þáttarins að þessu sinni er svo sannarlega ekki af verri endanum, hann er nefnilega Sigurður Lárus Hall matreiðslumeistari, betur þekktur sem Siggi Hall. Siggi er sennilega frægasti kokkur á Íslandi. Hann var um langt árabil með vinsælustu kokkaþætti á landinu á Stöð 2 og er einn af upphafsmönnum og eigandi Food and Fun hátíðarinnar.

 

Siggi er kokkur og saga hans er ótrúleg. Við förum yfir árin í Danmörku, Noregi, Hveragerði og á Óðinsvéum. Siggi er mikill sögumaður og ég þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að tosa upp úr honum sögurnar, enda er þátturinn sá lengsti sem ég hef gert. En ég held að það komi ekki að sök því það var aldrei dauð stund og ég skemmti mér konunglega allan tímann sem við spjölluðum. Ég er viss um að þið gerið það líka. 

#8 Kjartan Gíslason - Omnom

#8 Kjartan Gíslason - Omnom

October 27, 2020

Kjartan Gíslason er kokkur frá Vestmannaeyjum sem, áður en hann fór að stúdera súkkulaði, starfaði á mörgum af bestu veitingahúsum landsins.  Okkar spjall er þó mest um súkkulaði, enda er súkkulaði eitthvað það skemmtilegasta sem er til í öllum heiminum að tala um og borða. Það sem fólk kannski almennt gerir sér ekki grein fyrir er sérstaða Omnom í súkkulaðibransanum, því þau flytja inn baunir og gera úr þeim súkkulaði frá grunni. Við förum rækilega yfir þetta ferli, sem hófst allt í eldhúsinu hjá Kjarra í Breiðholtinu og allskonar skemmtilegt líka, enda er Kjartan, eins og allir gestir sem ég hef fengið, einstaklega skemmtilegur og fróður maður. Margir vilja meina að hann gæti verið best lesni kokkur landsins sem kemur vel í ljós í okkar spjalli. 

#A1 - Raggi og Óli Fílaglas

#A1 - Raggi og Óli Fílaglas

October 23, 2020

Aukaþáttur Kokkaflakks í eyrun heitir Raggi og Óli Fílaglas. Þetta er kinnroðalaust ripoff af hlaðvarpsþættinum Fílalag en í staðinn fyrir að fíla tónlist er meiningin að fíla vín. Í þetta sinn er það vín sem heitir Ca 40,08 - Orange Puglia Calcarius 2019 árgangur. 

#7 Shruti Basappa - Foodie

#7 Shruti Basappa - Foodie

October 20, 2020
Þetta er merkilegur þáttur af Kokkaflakki í eyrun af nokkrum ástæðum. Í fyrsta sinn í sögunni fer viðtalið fram á ensku því gestur þáttarins að þessu sinni er Shruti Basappa. Hún er arkitekt frá Indlandi sem hefur búið á Íslandi í tíu ár og er tamara að nota ensku en íslensku svo hún varð ofan á. Það er líka merkilegt að við tölum mikið um allskonar pólitík og þá aðallega matarpólitík og hvernig rasismi og menningarnám birtist í samhengi við mat og veitingahús. Við tölum líka um indversk brúðkaup og matarblaðamennsku en Shruti er einmitt matarblaðakona hjá Reykjavík Grapevine. 
Mjög áhugavert, mikilvægt og skemmtilegt spjall
 
Kokkaflakk í eyrun er í boði Ægisgarðs Brugghúss og Omnom súkkulaðigerðar. Það er Hljóðkirkjan sem framleiðir Kokkaflakk. Hljóðkirkjan býður upp á fimm þætti í viku. Dómsdagur er á mánudögum, Kokkaflakk á þriðjudögum, Draugar fortíðar á miðvikudögum, Snæbjörn talar við fólk á fimmtudögum og Besta platan ásamt Nei hættu nú alveg á föstudögum
 
#6 Nuno Alexandre Bentim Servo - Mógúll

#6 Nuno Alexandre Bentim Servo - Mógúll

October 13, 2020

Í þessum þætti kom einn stórtækasti veitingamaður Reykjavíkur í heimsókn, sjálfur Nuno Alexandre Bentim Servo. Nuno er frá Portúgal en hefur búið hér á landi í rúm þrjátíu ár. Hann er stórtækur í veitingabransanum og er yfirleitt þekktur sem Nuno í tvíeykinu Nuno og Bento. Saman reka þeir fimm veitingahús í Reykjavík sem hafa verið meðal þeirra vinsælustu í bænum lengi. Það er mál manna í bransanum að svo virðist sem þeir félagar kunni ekki að stíga feilspor því allt sem þeir hafa opnað hefur náð miklum vinsældum. 

Nuno er sem sagt líka þekktur sem Nuno á Tapas, Nuno á  Apótekinu, Nuno á Sæta svíninu, Nuno á Sushi Social og Nuno á Fjallkonunni. 

Hann mætti til mín með þessa líka fínustu rauðvínsflösku og við töluðum um allt milli himins og jarðar. Upphafið á veldinu, málaferli vegna Sushi social vinnusemi og bara hreinlega allt. Mjög lifandi og skemmtilegt spjall, enda er Nuno með skemmtilegri mönnum. 

Kokkaflakk í eyrun boði Ægisgarður í Ægir Brugghúsi og Omnom súkkulaðigerðar. Það er Hljóðkirkjan sem framleiðir Kokkaflakk. Hljóðkirkjan býður upp á fimm þætti í viku. Það er Dómsdagur á mánudögum, Kokkaflakk á þriðjudögum, Draugar fortíðar á miðvikudögum, Snæbjörn talar við fólk á fimmtudögum og Besta platan á föstudögum.
#5 Hrefna Sætran - Stjörnukokkur

#5 Hrefna Sætran - Stjörnukokkur

October 6, 2020
Hrefnu Sætran kannast sennilega flestir við. Hún er búin að vera með ýmiskonar matreiðslu- og matartengda þætti í sjónvarpi í mörg ár og ber því sannarlega nafnið stjörnukokkur með rentu.
 
Hún er einn af eigendum þriggja vinsælla veitingahúsa í Reykjavík og hefur verið í fremstu röð matreiðslufólks á Íslandi í 20 ár, þó hún sé bara rétt fertug að aldri. Við tölum um bransann, dans, fótbolta, æskuna, unglingsárin og þann fáránlega mikla metnað sem hún hefur og hefur alltaf haft til að skara fram úr. Mjög skemmtilegt spjall þó ég segi sjálfur frá. 
 
Kokkaflakk í eyrun er í boði Ægis brugghúss og Fastus. Það er Hljóðkirkjan sem framleiðir Kokkaflakk. Hljóðkirkjan býður upp á fimm þætti í viku, Dómsdag á mánudögum, Kokkaflakk á þriðjudögum, Drauga fortíðar á miðvikudögum, Snæbjörn talar við fólk á fimmtudögum og Bestu plötuna á föstudögum.
#4 Ragnheiður Axel - Sprúttsali

#4 Ragnheiður Axel - Sprúttsali

September 29, 2020
Gestur þáttarins að þessu sinni er Ragnheiður Axel Eyjólfsdóttir bruggari, sprúttsali og náttúrubarn.

Hún er í fremstu röð matarfrumkvöðla á Íslandi. Hún á fyrirtæki sem verkar söl, þara og íslenskar jurtir sem rata svo beint á bestu veitingastaði heimsins. Hún er alin upp í mið- og vesturbæ Reykjavíkur, menntaður hönnuður en ástríðan liggur í mat náttúrunnar og frumkvöðlastarfi. Ragnheiður Axel framleiðir líka vín úr íslenskum krækiberjum og rabarbara auk þess að búa til lífrænan vodka og gin og það er miklu fleira spennandi á dagskrá í framtíðinni. 
 
Fyrir utan að vera að standa í öllu þessu er hún líka mjög skemmtileg að tala við svo ég hvet fólk til að missa ekki af þessum þætti. 
 
Kokkaflakk í eyrun er í boði Ægis brugghúss og Fastus. Það er Hljóðkirkjan sem framleiðir Kokkaflakk. Hljóðkirkjan býður upp á fimm þætti í viku. Dómsdag á mánudögum, Kokkaflakk á þriðjudögum, Drauga fortíðar á miðvikudögum, Snæbjörn talar við fólk á fimmtudögum og Besta plötuna á föstudögum,
#3 Nanna Rögnvaldardóttir - Grúskari

#3 Nanna Rögnvaldardóttir - Grúskari

September 22, 2020

Nanna Rögnvaldardóttir er sennilega eina manneskjan á Íslandi sem titillinn matgæðingur passar almennilega við. Nanna hefur, eins og alþjóð svo sem veit, gefið út fjölda matreiðslubóka og á meðal þeirra er einhver mikilvægasta matreislubók síðari ára á Íslandi. Biblían, Matarást. Nanna er líka mikill grúskari og hefur sankað að sér gömlum íslenskum uppskriftum og á óhemjustórt safn matreiðslubóka. 

 
Ég fór í heimsókn til Nönnu og við áttum stórskemmtilegt spjall um þetta allt saman og meira til.
 
Kokkaflakk er í boði Ægis Brugghúss og Fastus. Kokkaflakk er framleitt af Hljóðkirkjunni sem býður upp á fimm þætti í viku; Dómsdag á mánudögum, Kokkaflakk á þriðjudögum, Drauga fortíðar á miðvikudögum, Snæbjörn talar við fólk á fimmtudögum og Bestu plötuna á föstudögum.
#2 Jakob H Magnússon - Hornið

#2 Jakob H Magnússon - Hornið

September 15, 2020

Jakob H Magnússon matreiðslumeistari er gestur þáttarins í þetta sinn. Jakob hefur verið kenndur við veitingastaðinn Hornið í þau rúmu 40 ár sem eru síðan hann opnaði hann, ásamt Guðna frænda sínum. Jakob stendur enn vaktina á horninu nýorðinn sjötugur. Hornið er sannkallað fjölskyldufyrirtæki því með Jakobi á vaktinni eru konan hans,  börn og barnabörn. Við spjöllum um Hornið, hvernig veitingabransinn hefur breyst á þessum 40 árum sem Hornið hefur sama og ekkert breyst. Tölum um fluguveiði, kokkalandsliðið, Bocuse D´or og ýmislegt fleira.

#1 Sonja Grant - Kaffi

#1 Sonja Grant - Kaffi

September 7, 2020
Sonja Grant veit allt sem hægt er að vita um kaffi og þá sérstaklega gæðakaffi, því hún hefur helgað líf sitt kaffi undanfarin rúm 20 ár. Hún hefur stjórnað vinsælustu kaffihúsum á Íslandi og tekið þátt í að leiða byltingu gæðakaffis á Íslandi. Sonja er líka leiðandi í alþjóðlegu samstarfi kaffifólks og heldur námskeið um kaffi í húsakynnum kaffibrennslunnar sinnar, Kaffibrugghússins. Sonju finnst ekki leiðinlegt að tala um kaffi og gerir það af mikilli þekkingu. En það er ekki síður gaman að tala við hana um annað en kaffi og það gerum við svo sannarlega í þessum þætti. En auðvitað líka kaffi.

Play this podcast on Podbean App